VEIÐIFÉLAG JÖKULSÁR Á DAL
STEFNUMIÐ 2017-2021
(Drög lögð fram af stjórn vorið 2017 til umræðu. Hægt að skrifa inn athugasemdir neðst á síðunni undir “Leave a reply” )
- FISKRÆKT
Jökulsá á Dal er löng og mikil á sem getur fóstrað mikið magn af laxi og silungi að meðtöldum öllum þverám sínum. Rannsóknir hafa leitt í ljós að bestu uppeldisskilyrðin eru í Jökulsánni sjálfri á meðan skilyrðin eru lakari í þverám. Til að ná náttúrulegum stofni upp í þá stærð að Jökulsá verði sjálfbær þarf að halda áfram þeirri fiskrækt sem staðið hefur yfir síðustu tíu árin.
Helstu áhersluatriði næstu fimm árin:
- að endurskoða og skila inn til Fiskistofu fiskræktaráætlun þegar við á
- að halda áfram klakveiði til seiðaeldis og reyna að fá fiska sem víðast af vatnasvæðinu
- að halda áfram árlegum seiðasleppingum á sumaröldum seiðum í Jökulsá á Dal
- að stuðla að áframhaldandi sleppingum á gönguseiðum í þverár neðri hluta, þ.e. Laxá, Fossá og Kaldá
- að hlúa að silungsstofnum vatnasvæðisins og gæta þess að sjóbirtingur og sjóbleikja séu ekki ofveidd.
- UMBÆTUR VEGNA FISKGENGDAR
Jökulsá á Dal er löng en fáar meiriháttar hindranir í henni sem hefta för laxfiska svo vitað sé eftir að fiskvegur var gerður við Steinboga. Seiðum hefur verið sleppt efst í ánni um nokkurra ára skeið og því ætti lax af þeim uppeldisstöðvum að skila sér á næstu árum á efstu mögulegu staði, allt inn undir Reykjará. Náttúruleg hrygning sem víðast í ánni á að leiða til stærri og sterkari laxastofns til framtíðar. Það er hagur heildarinnar að veiði í ánni sé sem mest og víðast og arður stjórnast að miklu leyti af veiði fyrir landi félagsmanna. Veiðifélagið vill því stuðla að sem mestri fiskgengd og veiði um alla Jöklu, jafnt á neðri svæðum sem efri.
Helstu áhersluatriði næstu fimm árin:
- að fylgjast með hve langt laxinn gengur og kanna hvort einhverjar hindranir komi fram í ánni
- að leita lausna til að koma laxi framhjá hindrunum sem kunna að finnast
- að leita leiða til að auka veiði í neðsta hluta árinnar, neðan Fossársvæðis
- NÝTING
Samkvæmt lögum um silungs- og laxveiði skulu veiðifélög setja sér 8 ára nýtingaráætlanir um veiði á þeim fisktegundum sem eru á vatnasvæðinu. Í þeim er m.a. tilgreindur stangafjöldi, veiðitími, takmarkanir á veiði og hvaða agn má nota til veiða. Veiðifélagið vinnur þessar nýtingaráætlanir í samræmi við samninga við leigutaka og í samráði við leigutaka.
Helstu áhersluatriði næstu fimm árin:
- að skila inn til Fiskistofu nýtingaráætlunum þegar við á
- að vinna nýtingaráætlanir með sjálfbærni ánna að leiðarljósi
- að huga að sjálfbærri nýtingu annarra veiðistofna en laxs
- RANNSÓKNIR
Við uppbyggingu á nýju veiðivatni eins og Jökulsá á Dal er nauðsynlegt að fylgjast með lífríkinu ár frá ári. Á grundvelli slíkra upplýsinga er hægt að meta árangur seiðasleppinga, hvað megi betur fara og hvort aðgerða sé þörf. Uppeldisskilyrði eru einnig misjöfn milli svæða í Jöklu og eitt af því sem þarf að mæla þegar fram í sækir og áður en ný arðskrá verður gerð 2024 þar sem 20% af einingum árinnar hafa verið skilin eftir til að taka tillit til hrygningar- og uppeldisskilyrða við mat á ánni. Veiðifélagið hefur átt gott samstarf við Landsvirkjun um að kosta rannsóknir Veiðimálastofnunar á lífríki árinnar og vill halda því áfram.
Helstu áhersluatriði næstu fimm árin:
- að tryggja framhald á árlegum rannsóknum Veiðimálastofnunar á lífríki Jökulsár á Dal og þveráa.
- að undirbúa mat á hrygningar- og uppeldisskilyrðum.
- UMHVERFISMÁL
Umhverfi veiðiár skiptir miklu máli fyrir veiðimenn og snyrtilegt umhverfi eykur verðmæti veiðisvæða á sama hátt og ósnyrtilegt umhverfi getur leitt til minni ásóknar í veiðileyfi. Veiðifélagið vill stuðla að samstarfi félagsmanna og leigutaka í að umhverfi Jöklu og þveráa hennar sé snyrtilegt og aðlaðandi fyrir veiðimenn.
Helstu áhersluatriði til næstu fimm ára eru:
- að heyrúlluplast sé hreinsað úr árfarvegi og af girðingum við ána og komið í veg fyrir að það fjúki í ána
- að bílhræ og aðrar úrsérgengnar vélar séu ekki áberandi við veiðistaði eða veiðivegi
- að girðingar séu í lagi og ónýtar girðingar nærri veiðistöðum fjarlægðar
- að gengið sé frá malartekju eða öðrum greftri þannig að sem minnst lýti séu af slíku í landslagi árinnar.
- AÐGENGISMÁL
Gott aðgengi að veiðistöðum og skýrar leiðbeiningar um hvernig komast skal að þeim eykur ánægju veiðimanna með veiðisvæði. Veiðifélagið vill í samstarfi við félagsmenn og leigutaka stuðla að því að allir þekktir veiðistaðir séu merktir og þokkalegir veiðislóðar og stígar lagðir að þeim. Mun félagið sækja styrki til að styðja við slíkar framkvæmdir með fé og mannafla.
Helstu áhersluatriði næstu fimm árin:
- að gefa reglulega út veiðikort sem sýna veiðistaði og veiðislóða og kanna með rafræna gerð slíkra korta
- að koma upp varanlegum skiltum á veiðistöðum sem sýna heiti þeirra (skiltin séu þó tekin niður yfir veturinn)
- að setja varanlega vegvísa á veiðivegi þar sem þeir liggja af þjóðvegi
- að vinna skipulega að gerð veiðivega og stíga að veiðistöðum í samráði við félagsmenn
- að hvetja félagsmenn til að setja góð hlið á girðingar þar sem veiðivegir eru
- að koma fyrir prílum yfir girðingar í samstarfi við félagsmenn þar sem þörf er á
- EYÐING VARGS
Við uppbyggingu á veiðisvæði með seiðasleppingum getur vargur haft töluverð áhrif á afkomu í seiðabúskap og veiði. Veiðifélagið vill í samstarfi við sveitarfélagið stuðla að eyðingu minks og annars vargs sem talinn er valda skaða við árnar, í samræmi við það sem lög kveða á um.
Helstu áhersluatriði næstu fimm árin:
- að sjá til þess í samráði við sveitarfélagið að minkabani sjái um gildruveiði og grenjavinnslu við ána
- að ráða skyttur til að eyða öðrum vargi, s.s. máfum, ef ástæða er talin til
- að fylgjast með sel við ósa Jöklu og fá mat sérfræðinga á því hvort þar sé fjölgun sem haft geti í för með sér minni fiskgengd.
- UPPLÝSINGAGJÖF OG FRÆÐSLA
Veiðifélag Jökulsár á Dal er eitt hið fjölmennasta á landinu, með hátt í 80 veiðirétthafa. Virkni félagsmanna fer ekki síst eftir þeirri upplýsingagjöf sem þeir fá og aðgengi að upplýsingum um félagsstarfið og veiðina. Veiðifélagið vill beita sér fyrir góðri upplýsingagjöf til félagsmanna sinna.
Helstu áhersluatriði næstu fimm árin:
- að halda úti heimasíðu fyrir félagsmenn og aðra sem eru áhugasamir um veiði í Jökulsá á Dal með upplýsingum um starfsemi, veiði og fleira
- að gefa út fréttabréf sem sent er félagsmönnum/veiðirétthöfum a.m.k. einu sinni á ári
- að standa fyrir fræðslu um veiði og fiskrækt fyrir félagsmenn
- að hvetja ungmenni af bæjum við ána til að kynna sér veiðileiðsögn með það að markmiði að geta tekið að sér að leiðsegja veiðimönnum framtíðarinnar