Jökla fór á yfirfall að kvöldi 4. ágúst eftir hlýjan júlímánuð. Góð veiði var í ánni allri fram á síðasta dag og fiskur víða. Veiðimönnum tókst að landa 800 löxum sem er mun meiri veiði en verið hefur á sama tíma. Jökla er þetta sumarið ein fárra laxveiðiáa þar sem hefur verið almennileg veiði og ein af þeim aflahæstu. Dagana fyrir yfirfall var að leitað að laxi á efstu svæðum, ofan við Tregluhyl sem hefur síðustu ár verið efsti veiðistaður. Að þessu sinni bar leitin árangur og lengdist veiðisvæði Jöklu um 10 km þegar Skúli Björn Gunnarsson landaði 72 cm hrygnu um 1 km innan við Stuðlagil. Hefur veiðistaður hlotið nafngiftina Efsta-Stuðlaflúð. Sama dag 3. ágúst landaði Steingrímur Friðriksson (Steini gæd) smálaxi í Mjósundum sem einnig eru ofan við Tregluhyl. Báðir veiðimenn sáu fleiri laxa við könnunina sem þýðir að laxinn gengur hið svokallaða Kast sem er rétt ofan við Tregluhyl og hefur af mörgum verið talið ófiskgengt. Þess ber að geta að sjaldan hefur vatnsmagn Jöklu verið jafn lítið og í ár. Vatnsmælirinn við Hjarðarhaga sýndi 12 rúmmetra á sekúndu að kvöldi 4. ágúst sem tífaldaðist með yfirfallinu um hádegi þann 5. ágúst.
Áfram verður veitt í Jöklu en veiðin færist nú í þverárnar í Hlíðinni, ósa þeirra og Fögruhlíðará. Síðustu sumur hefur verið lögð meiri áhersla á sleppingu gönguseiða í þær og því má búast við að veiðitölur Jöklu haldi áfram að hækka inn í haustið. Og hver veit nema yfirfallið klárist fyrir lok veiðitíma.
Á myndinni má sjá Skúla Björn með hrygnuna góðu við Efstu-Stuðlaflúð sem er 76 km frá sjó í beinni loftlínu út að Héraðsflóa.
