Veiðin byrjuð og grillsamvera 5. júlí

on

Laxveiði hófst í Jöklu 24. júní og hefur aldrei verið byrjað jafn snemma. Eftir kalt vor voru aðstæður hins vegar ekki eins ákjósanlegar og í fyrra. Fyrstu dagana kom því enginn lax á land og vatnavextir í Jöklu með köldu leysingavatni gerðu það að verkum að fiskvegurinn við Steinboga var illfær fyrir fisk. Vænir sjóbirtingar veiddust hins vegar í Laxá og víðar auk þess sem góð sjóbleikjuveiði var í Fögruhlíðarárós. Það var ekki fyrr en um hádegisbil 28. júní sem fyrstu laxarnir náðust í Hólaflúðinni og einn þeirra er hér á mynd með þeim Þresti Elliðasyni og Richard Gibbs. Daginn eftir bættust svo fleiri stórlaxar við og þar af einn 105 cm á Sandlækjarbroti.

Þetta árið er ekki boðað til sérstaks tiltektardags á vegum veiðifélagsins enda hefur þátttaka í honum verið dræm síðustu ár. Þess í stað mælist stjórn félagsins til þess að veiðiréttarhafar hugi að heimalöndum sínum þegar þeir hafa tíma, hreinsi rusl við ána og skoði aðgengi eins og hlið og slóða. Þannig breytist tiltektadagurinn í heimadaga tiltektar eins og hverjum hentar. Stjórn veiðifélagsins ætlar samt í samráði við leigutaka að hafa grillsamveru í Hálsakoti fyrir veiðiréttarhafa. Hún fer fram föstudaginn 5. júlí kl. 16 og vonandi geta sem flestir litið við og spjallað um málefni Jöklu.

Leave a comment