Aðalfundur Veiðifélags Jökulsár á Dal var haldinn laugardaginn 29. apríl 2023 á Hótel Stuðlagili á Skjöldólfsstöðum. Þar fluttu Þröstur Elliðason frá Strengjum og Gunnar Örn Petersen, framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga, áhugaverð erindi á undan hefðbundnum aðalfundarstörfum. Þröstur ræddi m.a. niðurstöður seiðarannsókna sem sýna greinilega aukningu í náttúrulegri hrygningu í Jöklu og benda rafveiðar síðustu tveggja ára til þess að þéttleiki sé að verða 10 seiði á hverja 100 fermetra, sem er harla gott (sjá graf sem er fengið úr minnisblaði frá Haf og vatn). Í skýrslu formanns, Þorvaldar P. Hjarðar, kom fram að náðst hefði samkomulag um að Landsvirkjun kosti rannsóknir vegna botngerðarmats sem Haf og vatn ætlar að taka að sér að framkvæma. Skúli Björn Gunnarsson og Gestur Hallgrímsson voru endurkjörnir sem aðalmenn til næstu 3ja ára og varamennirnir, Agnar Benediktsson, Þorsteinn P. Gústafsson og Stefanía Karlsdóttir endurkjörin til eins árs. Finna má fundargerð aðalfundarins og ársreikning undir Fundargerðir hér á síðunni.
