Leigutími Strengja framlengdur til 2031

Aðalfundur Veiðifélags Jöklu fór fram á Skjöldólfsstöðum 24. apríl. Flestir fundarmenn voru á staðnum en nokkrir veiðiréttarhafar sátu fundinn gegnum fjarfundabúnað. Halla Eiríksdóttir og Lárus Brynjar Dvalinsson voru endurkjörin í stjórn til næstu 3ja ára og varamenn til eins árs verða áfram: Agnar Benediktsson, Þorsteinn Gústafsson og Stefanía Karlsdóttir. Samþykkt var á fundinum að fullar leigugreiðslur yrðu innheimtar fyrir árið 2020 og að arðgreiðslur fyrir 2020 og 2021 yrðu 60% af leigutekjum og greiddar í einu lagi fyrir árslok.

Aðalfundurinn samþykkti samhljóða viðauka við gildandi leigusamning við Strengi sem felur í sér að gildistími samnings lengist um fimm ár og nær til árslok 2031 í stað 2026. Grunngjald leigu mun í framhaldinu hækka um 100% árið 2022 til viðbótar við samningsbundnar hækkanir. Nýtt samkomulag um leigugjald verður gert 2026. Þessi samningsviðauki er forsenda þess að leigutaki fari í frekari framkvæmdir við veiðihúsið í Hálskoti til að auka gistirými og bæta alla aðstöðu veiðimanna. Markmiðið er að áin verði tólf stanga veiðisvæði frá og með sumri 2022.

Aðalfundargerð er aðgengileg undir fundargerðum.

Þröstur Elliðason frá Strengjum og Þorvaldur P. Hjarðar formaður félagsins með samningsviðaukann. Fyrir aftan standa stjórnarmennirnir: Halla Eiríksdóttir, Lárus Brynjar Dvalinsson og Skúli Björn Gunnarsson.

Leave a comment