Veiðiárinu lokið

jokla2019-klapparhylur

Veiði lauk í Jöklu 30. september. Því miður þá hélst yfirfallið út veiðitímann frá því það kom á í byrjun ágúst. Það voru því fáar vikur sem hægt var að veiða í Jöklu sjálfri þetta sumarið. Veiðitölur verður að skoða í ljósi þess. Óstaðfestar tölur eru að veiðst hafi 383 laxar í Jöklu að Kaldá og Laxá meðtöldum, þar af 2 hnúðlaxar. Tæplega 30 af þessum löxum veiddust á Jöklu 2 og þar af einn 102 sm við Gauksstaði. Bleikjur voru skráðar 125 og 46 urriðar. 

Laxveiðiárið 2019 er það versta frá því á 8. áratugnum á landinu og í ljósi þess og hins stutta veiðitíma í Jöklu vegna yfirfalls verður þessi veiði að teljast ágæt. Seiðabúskapur árinnar virðist aukast ár frá ári og náttúruleg hrygning er byrjuð að skila sínu m.v. rannsóknir fiskifræðinga. Þá er laxinn farinn að sækja ofar í ána og fyrr eins og kom í ljós við Treglu á síðasta degi fyrir yfirfall og sagt var frá í síðasta pósti. Seiðasleppingar í sumar voru svipaðar og síðustu ár og verður spennandi að sjá hverju næstu ár skila.

Á myndinni hér fyrir ofan má sjá sælan veiðimann með fallegan 94 cm hæng sem veiddist í Klapparhyl.

Leave a comment