
Það er enginn hörgull á fallegum veiðistöðum á Efra-Dal. Ljósm. SBG.
Eins og frá var greint í síðustu færslu þá kom yfirfallið óvenjusnemma í ár sökum veðurblíðu og hlýinda fyrrapart sumars. En síðan gerðist það sem hefur einu sinni gerst áður, yfirfallið fór af áður en veiðitíma lauk. 20. september tók Jökla að hreinsa sig á ný og endaspretturinn fram til mánaðamóta var harla góður. Lax virtist vera um alla á þrátt fyrir langvarandi yfirfall (7 vikur) og tók grimmt hjá veiðimönnum. Þannig tókst að ná fallegum hrygnum og hængum sem klakfiskum og staðreyna að veiðisvæðið nær nú langleiðina upp að Hákonarstöðum og Klausturseli að svokölluðu Kasti. Bráðabirgðaniðurstöður þegar veiði lauk 31. september gefa 528 laxa veidda í Jöklu, Laxá, Kaldá og Fögruhlíðará. Bleikjur skráðar í Jöklu og þverám hennar eru 184 og 19 urriðar. Í Fögruhlíðará eru skráðir 144 urriðar og 278 bleikjur. Þessar tölur þýða um 51% aukningu í laxveiði frá 2017 sem telst harla gott á norðausturhorninu þetta árið. Nákvæmari tölur verða settar inn síðar.
Rétt er að minna veiðirétthafa á að senda inn gögn vegna arðgreiðsla sem greiða á út í desember. Það fengu allir send eyðublöð sem skila á til Höllu Eiríksdóttur gjaldkera hið fyrsta.