Sólin hefur skinið vel á okkur hér fyrir austan frá því í vor. Ekki er hægt að kvarta yfir veðurblíðunni en hún er veiðifélaginu ekki hagstæð. Yfirborð Hálslóns var lágt í vor þegar við héldum aðalfund og því útlit fyrir gott og langt veiðiár í Jöklu. En sökum sólbráðar í hlýindum undanfarna mánuði hækkaði ört í lóninu og hraðar en í venjulegu árferði. Fyrir vikið kom yfirfallið niður dalinn 4. ágúst af miklum krafti og Jökla verður ekki veidd meira þetta árið nema í vatnaskilum þveránna. Að kvöldi 3. ágúst voru komnir 328 laxar á land sem er mjög gott og smálaxagöngur voru farnar að skila sér sem einnig veit á gott fyrir næsta ár í tveggjaára stórlaxi. Meðfylgjandi er línurit frá leigutaka sem sýnir þróun veiðinnar síðustu árin. Af því má ráða að veiðin þetta árið hófst af meiri krafti en flest önnur ár og vonandi er það vísbending um það sem koma skal. En það sem eftir lifir veiðitímans 2018 verður hins vegar að treysta á veiði í þveránum fyrir veiðimenn. Þeir sem hafa áhuga á að sjá myndir af veiði ársins geta skoðað Facebook síðu Strengja. https://www.facebook.com/strengir/
FRESTUN VEIÐIFÉLAGSDAGS TIL NÆSTA ÁRS
Eins og boðað var í fréttabréfi í vor var ætlunin að halda veiðifélagsdag með veiði í Jöklu, tiltekt og grilli laugardaginn 18. ágúst. Sökum yfirfalls hefur stjórn ákveðið að slá daginn af þetta árið en halda hann rétt fyrir opnun á næsta ári, í lok júní. Nánar um það síðar.
FRAMKVÆMDIR OG MERKINGAR
Aðgengi var lagað að nokkrum veiðistöðum fyrir veiðitímann í ár. Stærsta framkvæmdin var við Hólaflúð sem er mikilvægur veiðistaður hjá Hauksstöðum þar sem alltaf er hægt að ganga að laxi vísum. Austurverk lagfærði göngustíginn sem var þar fyrir, heldur torfær, og komið var fyrir nestisborði. Er almenn ánægja meðal veiðimanna, sérstaklega þeirra sem eldri eru, með þessa framkvæmd.
Haldið var áfram að koma fyrir vönduðum merkingum við veiðistaði sem þau Jón Björgvin og Linda í Teigaseli hafa hannað og framleitt. Eru nú þeir 30 veiðistaðir sem gefið hafa flesta fiska með slíkum merkingum.
Klak síðasta árs úr Jöklulöxum tókst vel í seiðaeldinu hjá Þingeyingum og fyrir vikið stóð veiðifélaginu og leigutaka til boða að fá fleiri smáseiði til að sleppa í Jöklu í sumar. Hátt í 100 þús. viðbótarseiði fóru á ákjósanlega staði og munu þau væntanlega skila sér í góðri veiði eftir 3-5 ár.