
Stjórn veiðifélagsins 2018-2019 f.v.: Skúli Björn Gunnarsson, Halla Eiríksdóttir, Gestur Hallgrímsson, Aðalsteinn Jónsson, Lárus Brynjar Dvalinsson og Agnar Benediktsson 3. varamaður. Á myndina vantar Þorstein Gústafsson 1. varamann og Benedikt Ólason 2. varamann.
Aðalfundur Veiðifélags Jökulsár á Dal var haldinn á Skjöldólfsstöðum laugardaginn 28. apríl. Fundinn sóttu um 30 manns og voru fulltrúar 37 atkvæðisbærra veiðirétthafa mættir. Á fundinum fluttu erindi: Guðni Guðbergsson frá Hafrannsóknastofnun sem sagði frá rannsóknum síðustu sumars á lífríki og seiðabúskap; Þröstur Elliðason forsvarsmaður leigutaka sem gerði grein fyrir veiði síðasta árs og horfum á sumrinu fram undan; og Jón Helgi Björnsson formaður Landssambands veiðifélaga sem fræddi fundarmenn um ógnina af sjókvíaeldi með frjóum norskum eldislaxi sem nú eru mikil áform um að auka á Austfjörðum og Vestfjörðum.
Kosningar til stjórnar fóru þannig að Halla Eiríksdóttir og Lárus Brynjar Dvalinsson komu ný inn í stjórn í stað Þórarins Hrafnkelssonar og Braga Steinars Björgvinssonar sem gáfu ekki kost á sér til endurkjörs. Varamenn voru kosnir: Þorsteinn Gústafsson (1.), Benedikt Ólason (2.) og Agnar Benediktsson (3.).
Á aðalfundinum voru greidd atkvæði um nýjan samning við Veiðiþjónustuna Strengi og um ráðstöfun veiðiréttar til Strengja árin 2022-2026. Samningurinn var samþykktur samhljóða en samkvæmt honum verða árlegar hækkanir á leigugjaldi út samningstímann. Nýi samningurinn tekur gildi 1. júní 2018.
Þá var á aðalfundinum samþykkt að arðgreiðslur verði greiddar út í árslok hvert ár sem hlutfall af leigutekjum yfirstandandi árs. Hlutfallið verði ákveðið á aðalfundi hvers árs. Og samþykkt var að hlutfallið árið 2018 yrði 60% af leigutekjum.
Fundargerð aðalfundarins er hér aðgengileg.