Franskur veiðimaður kastar flugu fyrir lax á Sauðárbreiðu í Kaldá. Ljósmynd SBG.
Aðfaranótt sl. laugardags 19. ágúst tók að flæða yfir úr Hálslóni og út í farveg Jöklu. Var áin veiðanleg fram eftir sunnudegi en er nú komin í sinn gamla jökulgrá lit. Það fór því svo að yfirfallið kom á svipuðum tíma og í fyrra en á tímabili var útlit fyrir að það kæmi í ágústbyrjun. Veiðin í Jöklu og þverám hennar ásamt Fögruhlíðará hefur samt verið fremur lítil eins og í fleiri ám á norðausturhorninu. 300 laxa múrinn þetta árið hefur enn ekki verið rofinn þó að stutt sé í hann sé Fögruhlíðará talin með. Samt sem áður hefur veiðin verið nokkuð dreifð yfir veiðisvæðið og m.a. komið fiskar á land alveg upp í Arnórsstaðahvammi og á því svæði. Af einhverjum ástæðum hefur eins árs fiskurinn skilað sér illa þrátt fyrir bjartsýni manna um slíkar göngur fyrir veiðitímabilið. Og sá eins árs fiskur sem komið hefur verið heldur smár. Í því stóra vatnsfalli sem Jökla er dreifast fiskarnir víða og ber mönnum saman um að óvenjulítið af fiski hafi verið í ánni í sumar enda hagstæð skilyrði til veiða, hæfilegt vatn og áin jafnan tær. En haustveiðin er eftir og mun hún fara fram í þveránum og á vatnaskilum við Jöklu svo að enn er von til að veiðitölur hækki. Til að glæða veiðina í framtíðinni ákváðu leigutaki og veiðifélagið að bæta í seiðasleppingar í sumar þar sem klak síðasta árs tókst vel. Bæði var aukin slepping á sumaröldum seiðum og gönguseiðum miðað við síðasta ár. Vonandi skilar það sér á næstu árum til viðbótar við síaukna náttúrulega hrygningu í Jöklu sem rannsóknir sína að er í örum vexti og viðkoma þeirra seiða góð. Þó að þetta sumar hafi veiði verið dræm eigum við því góð ár í vændum.