Félagsfundur 5. nóvember

Veiðiréttarhafar ættu nú að hafa fengið ábyrgðarbréf með fundarboði vegna félagsfundar Veiðifélags Jökulsár á Dal sem haldinn verður laugardaginn 5. nóvember 2016, í Brúarásskóla, kl. 14:00. Aðeins eitt mál er á dagskrá, kynning á arðskrá veiðifélagsins og atkvæðagreiðsla um hana.

Vinna við gerð arðskrár fyrir Veiðifélag Jökulsár á Dal hefur verið kynnt á fundum félagsins að undanförnu. Einnig hefur skráin verið kynnt í bréfi til viðkomandi veiðiréttarhafa og þeim veittur kostur á að kynna sér efni hennar og gera athugasemdir við hana.

Tillaga að arðskrá  félagsins gerir ráð fyrir gildistíma til ársloka 2021. Gert er ráð fyrir að arðskrá verði endurkoðuð að þeim tíma liðnum. Með þessu er gert ráð fyrir endurskoðun arðskrár eftir 5 ár, en sá tími er styttri en almennt 8 ára tímabil, sem ekki er unnt að gera kröfu um endurskoðun arðskrár. Þetta er gert að tillögu stjórnar þar sem lítil reynsla er komin á ána sem laxveiðiá.

Samkvæmt 41. gr. lax- og silungsveiðilaga gildir að atkvæði 2/3 hluta allra atkvæðisbærra félagsmanna þarf til svo arðskrá verði samþykkt. Það er því mikilvægt að félagsmenn mæti til fundarins, svo komist verði hjá boðun annars fundar. Þurfi að boða til annars fundar ræður einfaldur meirihluti þeirra sem mæta á þann fund.

Komi til þess að fundarsókn verði ekki nægjanleg, verður síðari fundur um sama efni, haldinn 19. nóvember 2016 á Hreindýraslóðum, Skjöldólfsstöðum, kl. 14:00. Komi til þess, verður fundarboð áréttað í almennu bréfi til veiðiréttarhafa.

Leave a comment