Þá er Jökla orðin kólgugrá eins og í gamla daga. Síðasti veiðidagur í ánni tærri var mánudagurinn 22. ágúst. Veiðidagar þetta árið fyrir yfirfall urðu því 53 talsins og skiluðu um 400 löxum. Veiðin dreifðist á mun fleiri veiðistaði en síðustu ár og sömuleiðis veiddist lax allt upp við ármót Treglu á Efri-Dal. Um 80% af fiskunum var 2ja ára lax (þ.e. hefur verið tvo vetur í sjó) yfir 70 sm að stærð en eins og við var að búast eftir kalt vor og sumar 2015 þá skiluðu smálaxagöngur sér illa. Sú hefur verið reyndin víða um land þetta sumarið. Langflestir þessir 400 fiskar fengu frelsi aftur og munu því geta tímgast í ánni í haust og hjálpað til við að byggja upp laxastofn árinnar. En þó að sé komið yfirfall heldur veiðin áfram. Nú eru það árnar í Hlíðinni sem þarf að treysta á, Laxá, Kaldá og Fögruhlíðará að ógleymdri Fossá. Ef að rigningarspá næstu daga rætist má búast við að fiski í þeim fjölgi og jafnvel láti eitthvað af eins árs laxi á sér kræla því að hann var á sveimi í Jöklu sjálfri fyrir yfirfall eins og meðfylgjandi mynd sem tekin var af veiðimanni í Fossárgrjótum 21. ágúst sýnir. 