Þá hafa fyrstu nýju merkin við veiðistaði verið sett upp. Þau eru hönnuð og smíðuð af bændum í Teigaseli og var þeim fyrstu komið fyrir nú í vikulokin á völdum stöðum með aðstoð vinnuflokks Landsvirkjunar. Stefnt er að því að yfir 20 staðir verði merktir áður en veiðitíma lýkur þetta árið. Merkin eru þannig úr garði gerð að hægt er að safna þeim saman eftir veiðitíma og geyma inni við að vetrinum sem eykur endingu þeirra verulega. Þau eru úr íslensku lerki og heitið brennt inn í viðinn. Ætlunin er að merkja um 20 veiðistaði á hverju ári þar til komin verða vönduð merki sem víðast.