Veiðin í Jöklu og Fögruhlíðará fer vel af stað þetta sumarið. Aldrei fyrr hefur orðið vart við jafnmikið af laxi á fyrstu 10 dögum júlímánaðar og það dreift um árnar. Búið er að landa um 75 löxum og eru þeir nær allir af stærri gerðinni enda smálaxagöngur ekki byrjaðar. Um helgina dró síðan til tíðinda á Jöklu III, þ.e. ofan Merkisbrúar. Benedikt Ólason Gauksstaðabarón fór til veiða á bernskuslóðum þar sem bæjarlækurinn í Merki fellur í Jöklu. Þar setti hann í vænar bleikjur en svo var eitthvað þyngra á stönginni. Reyndist það vera 80 sm lax og er þetta þar með orðinn efsti staður sem lax hefur veiðst á. Verður að telja það góð tíðindi og allar líkur á að finna megi fiska ofar í ánni. Veiðileyfi á Jöklu III eru ódýr og um að gera að hafa samband við Guðmund veiðivörð og fara og leita stórfiska.