Seiðasleppingar hafnar

on

seidaslepping

Um þessar mundir er verið að sleppa seiðum á vatnasvæði Jökulsár á Dal. Gönguseiði eru sett í tjarnir við þverár í Hlíðinni og í Fögruhlíðará og munu þau ganga til sjávar í haust og skila sér í veiði strax næsta sumar. Í Jöklu sjálfa eru sett á valda staði bæði eins árs seiði (ca. 10 gr.) sem munu ganga til sjávar næsta sumar og sumaralin smáseiði sem þurfa 2-3 ár í ánni áður en þau leita til hafs. Veiði og rannsóknir síðustu ára hafa sýnt að minni seiðin skila sér betur upp Jöklu heldur en gönguseiði sem sett eru í tjarnir. Uppvaxtarskilyrði í ánni virðast vera það góð að smáseiðin dafna vel og fara sem sterkir einstaklingar til sjávar eftir 1-3 ár í ánni. Því hefur verið dregið úr sleppingum gönguseiða í efri hluta Jöklu en smáseiðum fjölgað að sama skapi. Allt á þetta að stuðla að því að auka sjálfbærni vatnasvæðisins enda sýna rannsóknir að náttúruleg hrygning eykst ár frá ári og þá sérstaklega í Jöklu sjálfri. Því kemur að því að ekki muni þurfa að sleppa seiðum nema þá gönguseiðum í ár sem ekki fóstra lax. Eftir sleppingar í ár fer tala seiða sem sleppt hefur verið í Jöklu, þverár hennar og Fögruhlíðará á 10 árum að nálgast eina milljón. Kostnaður við þá fiskirækt er áætlaður um 100 milljónir króna og hefur leigutaki staðið undir honum skv. samningum.

Á myndinni má sjá poka sem verið er að fara að sleppa  úr eins árs seiðum úr klaki fiska sem veiddir voru til undaneldis sumarið 2014 í Jöklu og þverám hennar.

Leave a comment