Stjórn Veiðifélagsins 2016-2017. F.h. Aðalsteinn Jónsson formaður, Skúli Björn Gunnarsson, Vilhjálmur Snædal, Bragi Steinar Björgvinsson, Þórarinn Hrafnkelsson, Gestur Hallgrímsson 1. varamaður, Benedikt Arnórsson 2. varamaður. Á myndina vantar Benedikt Ólason 3. varamann.
Aðalfundur Veiðifélags Jökulsár á Dal var haldinn í Brúarásskóla sl. laugardag, 16. apríl. Fundinn sátu um 30 manns. Gestir fundarins voru Þröstur Elliðason frá Strengjum, Guðni Guðbergsson frá Veiðimálastofnun og Guðni Magnús Eiríksson frá Fiskistofu. Í máli Þrastar og Guðna kom fram að skilyrði í Jökulsánni batna ár frá ári og líkur eru á góðri veiði á 2ja ára laxi í sumar. Kuldi síðasta sumars gæti hins vegar komið niður á göngum af eins árs fiski. Guðni Magnús, sviðsstjóri lax- og silungsveiði hjá Fiskistofu, fór yfir skyldur og ábyrgð veiðifélaga og hvernig væri æskilegt að standa að deildaskiptingu m.v. nýjustu lög og reglugerðir. Eitt stærsta mál aðalfundarins var kynning arðskrárnefndar á drögum að arðskrá. Nefndin hefur unnið af krafti síðustu misseri og er nú búin að vinna arðskrá sem sýnir einingar á hverja jörð út frá bakkalengd, vatnsmagni og veiði. Á fundinum var samþykkt að fela nefndinni að kynna fyrirliggjandi drög að arðskrá fyrir öllum veiðiréttarhöfum á næstu mánuðum með það að markmiði að leggja hana fyrir félagsfund í haust.
Kosið var í þau embætti og nefndir sem samþykktir og fundarboð kváðu á um. Aðalsteinn Jónsson var endurkjörinn formaður félagsins til næstu þriggja ára og varamenn sem kosnir voru í fyrra voru kjörnir til annars árs. Þá var arðskrárnefnd endurkjörin.
Fundargerð aðalfundar kemur fljótlega inn á síðuna.